Svo ber til um þessar mundir að út er komin önnur sólóplata gítarleikarans Tryggva Hübner. Opinber útgáfudagur gripsins er hinn níundi október 2010. Platan ber nafnið 2.0 og er það að sögn höfundar með tilvísun í þá venju hugvitsmanna í hinum stafræna geira að nefna nýjar útgáfur verka sinna í númeraröð, þannig að segja má að merking nafnsins sé “Nýtt og betra”. Meðal hljóðfæraleikara á plötunni eru: Jóhann Ásmundsson, Einar Valur Scheving, Þórir Úlfarsson, Jón Ólafsson og Ásgeir Óskarsson.
Platan inniheldur 11 verk af nokkuð fjölbreyttum toga. 9 fyrstu lög plötunnar eru eingöngu leikin á hljóðfæri, (instrumental) og eru 8 þeirra eftir Tryggva sjálfan en eitt eftir Valgeir Skagfjörð.
Í kjölfarið fylgja 2 erlend lög sungin, gamall blues standard frá 1955: „Need your love so bad“ eftir Little Willie John , sem þekkt var í flutningi Peter Green og Fleetwood Mac á sínum tíma. Sara Blandon syngur lagið í þessari nýju útgáfu og er það mál manna að þar sé um upprennandi stórstjörnu að ræða.
Í lokalagi plötunnar sem er klassískt Rokklag frá hljómsveitinni FREE; „Wishing Well“, fær Tryggvi til liðs við sig sannkallaða goðsögn úr heimi íslenska Rokkheimsins : Sigurð Kristmann Sigurðsson. Sigurður gerði garðinn frægan hér á árum áður er hann söng með hljómsveitunum EIK, Tívolí og Íslensk Kjötsúpa , svo eitthvað sé nefnt. Hér er um stórsöngvara að ræða og sannkallaður hvalreki á fjörur rokkunnenda að fá hann fram á sviðið eftir langt hlé. Platan fæst í helstu hljómplötuverslunum og einnig er hægt að kaupa hana á gogoyoko.com
Dreifing: Zonet.